top of page
Lyfjagras.jpg
Lyfjagras teikning.jpg

Lyfjagras

Pingiucula vulgaris

Lyfjagrasið ber ekki nafn sitt af því það hafi lækningamátt heldur er íslenska orðið lyf notað yfir mjólkurhleypi en lyfjagrasið var notað til að hleypa mjólk til skyrgerðar. Áður var kálfsmagi einnig notaður í sama tilgangi en svipuð efni eru í kálfsmaga og í blöðum lyfjagrassins sem valda því að mjólkin hleypur. Ef kýr bíta lyfjagras í haga á mjólkin það til að hlaupa í tíma og ótíma og var yfirnáttúrulegum öflum kennt um en eflaust var þó fóðrinu um að kenna. Þó að nafnið tengist ekki lækningamætti var hún notuð til að lækna júgurbólgu í kúm. Þá voru marin lyfjagrasblöð lögð upp við spenann og brenni-steinsreykur látinn leika þar yfir. Jurtin var einnig soðin saman með tólg og borin á spenana.

Lyfjagras nærist á prótínum sem það fær úr flugum og smádýrum. Lyfjagrasið laðar smádýrin að jarðlægum blöðum sínum sem eru alþakin slími eða meltingarensímum sem seytast frá kirtilfrumum í yfirhúðinni. Smádýrin festast á blöðunum sem verpast saman yfir smádýrið sem meltist upp í meltingarvökvanum og næringin sogast niður í rótina. Á Íslandi eru þrjár tegundir sem nærast á prótínum, hinar eru blöðrujurt (Urticularia minor) og sóldögg (Drosera rotundifolia).

 

bottom of page