top of page

Guðrún Bjarnadóttir 

Ég góð.png

Guðrún Bjarnadóttir er fædd í Reykjavík 1969. Hún ólst upp á Bretlandseyjum til 7 ára aldurs en eftir það í Fossvoginum fram yfir tvítugt. Guðrún hefur komið víða við en hún starfaði meðal annars hjá Ríkisútvarpinu við ýmis störf og einnig hjá Stöð 2 sem útsendingarstjóri frétta og fréttatengdra þátta. Guðrún hefur starfað sem landvörður, aðallega í Mývatnssveitinni þar sem hún fór með gesti í grasafræðlugöngur. Það var í Mývatnssveitinni sem áhuginn á grasnytjum og þjóðtrú kviknaði en í fræðslugöngunum þá náðist að vekja áhuga gesta á gróðrinum með ýmsum skemmtisögum. Guðrún hefur fjölbreytta menntun en hún er með AS gráðu í dýrahjúkrun, Bs gráðu í búvísindum, MSc gráðu í náttúrufræðum og menntunarfræði diplóma (kennsluréttindi) frá Háskólanum á Akureyri. MSc ritgerð Guðrúnar fjallaði um hvernig við nýttum villtan gróður áður fyrr en bókin er skrifuð upp úr MSc ritgerðinni. Í dag vinnur Guðrún við handverk en hún rekur jurtalitunarvinnustofuna Hespuhúsið við Andakílsárvirkjun þar sem hún jurtalitar band og fræðir gesti um gamlar litunarhefðir. Guðrún er einnig stundakennari við Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri þar sem hún kennir grasafræði og plöntugreiningu.

Jóhann Óli Hilmarsson 

Jóhann í lit.png

Jóhann Óli Hilmarsson er fæddur í Reykjavík árið 1954. Foreldrar hans voru Hilmar Hans Gestsson og Hanna Ágústa Ágústsdóttir. Dóttir hans er Oddný Assa, fædd 1987 og dóttursonur Óðinn Hersir, fæddur 2012. Hann er ættaður úr Flóanum í báðar ættir og síðla árs 2001 flutti hann á slóðir forfeðranna, til Stokkseyrar. Hann starfar sjálfstætt sem náttúruljósmyndari, fuglafræðingur, ráðgjafi, kennari og blaðamaður. Eftir Jóhann Óla liggja hundruð skýrsla og greina um fugla og íslenska náttúru, einnig nokkur hundruð útvarpsfréttir. Hann hefur ritað og myndskreitt nokkrar bækur eða bókarhluta, merkust þeirra er Íslenskur fuglavísir, hún hefur selst í nærri 50.000 eintökum á þremur tungumálum frá 1. útgáfu 1999. Ljósmyndir hans hafa birst í blöðum, bókum, tímaritum, sýningum og vefsíðum um allan heim, jafnframt á frímerkjum og peningaseðlum. Jóhann Óli hefur verið formaður Fuglaverndar frá árinu 1998, setið í stjórn þess frá 1987 og verið félagi frá 1971.

bottom of page